Innlent

Bognuðu í dómsalnum - upplýstu um höfuðpaurinn í einu stærsta fíkniefnamáli síðari ára

Valur Grettisson skrifar
Mennirnir eru grunaðir um að hafa flutt inn 19 kíló af amfetamíni auk amfetamínbasa.
Mennirnir eru grunaðir um að hafa flutt inn 19 kíló af amfetamíni auk amfetamínbasa.

Réttað var yfir sjö karlmönnum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sem hafa verið ákærðir fyrir að smygla tugum kílóa af amfetamíni til landsins. Mennirnir neita að hafa lagt á ráðin um smyglið, og upplýstu loks fyrir rétti í dag hver höfðupaurinn væri.

Málið er eitt það umfangsmesta á síðastliðnum árum. Alls voru sjö menn ákærðir. Þrír þeirra, tvær bræður og einn maður sem starfaði til skamms tíma sem lögregluþjónn, eru ákærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning á nítján kílóum af amfetamíni og 1,7 lítra af amfetamínbasa.

Bræðurnir og lögregluþjónninn fyrrverandi sendu fíkniefnin í þremur póstsendingum. Þeir neita að hafa skipulagt innflutninginn en viðurkenna hinsvegar að þeir hafi vitað að til stæði að flytja fíkniefni til landsins. Bræðurnir upplýstu réttinn í morgun um nafn raunverulegs höfuðpaurs í málinu. Sá eldri sagðist upplýsa um það núna, því maðurinn væri látinn, en hann hafi óttast um öryggi sitt áður. Að öðru leytinu til sökuðu þeir hvorn annan um skipulagningu á innflutningnum.

Talið er að hægt hafi verið að framleiða 17 kíló úr amfetamínbasanum. Því eru mennirnir sakaðir um að hafa reynt að flytja um hátt í fjörtíu kíló af amfetamíni til landsins. Sé tekið mið af gangverði á amfetamíni sem SÁÁ tók saman, kemur í ljós að götuvirði efnanna er varlega áætlað 200 milljónir króna. Sú tala hækkar líklega séu efnin drýgð, sem mun vera venjan þegar fíkniefnum er komið í umferð.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×