Innlent

Sigmundur Davíð fundaði með forsetanum

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Það skýrist í dag hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út og hvaða stefnumál verður lögð áhersla á. Dagurinn hófst klukkan níu þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hitti Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Hann mun svo kynna stjórnarsáttmálann síðar í dag. Í kvöld verða svo þingflokksfundir flokkanna haldnir þar sem í ljós kemur hverjir gegna ráðherraembættum. Blaðamannafundur sem boðað hefur verið til að Laugarvatni klukkan 11:15 er í beinni sjónvarpsútsendingu á Vísi.

Uppfært kl. 10:15

Á blaðamannafundi á Bessastöðum sagðist Ólafur Ragnar Grímsson vera glaður og ánægður með að Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki tækist á mynda ríkisstjórn á þetta þó skömmum tíma. Oft hafi þetta tekið lengri tíma. Þá sagðist forsetinn alltaf hafa verið bjartsýnn og lýsti yfir ánægju sinni með forsætisráðherraefnið. Á morgun klukkan 11:00 verður ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar á Bessastöðum. Strax á eftir hefst ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar.

Uppfært klukkan 9:45


Fundi þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, verðandi forsætisráðherra, er nú lokið. Þeir svöruðu báðir spurningum fréttamanna að loknum fundi.

Sigmundur Davíð mætti á Bessastaði klukkan níu í morgun þar sem hann gerði forsetanum grein fyrir niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn. Hann heldur svo að Laugarvatni þar sem hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, munu kynna niðurstöðurnar fyrir almenningi.

--------------------------------------------------------------

Klukkan 9:13 hafði Sigmundur Davíð mætt á Bessastaði

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra, er mættur til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum. Þar mun hann gera forsetanum grein fyrir niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn.

Að loknum fundi munu forsetinn og Sigmundur Davíð gera fjölmiðlum grein fyrir fundi sínum. Síðan heldur Sigmundur Davíð að Héraðsskólanum að Laugarvatni þar sem hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, munu kynna stjórnarsáttmálann.

Horfa má á blaðamannafund Ólafs Ragnars og Sigmundar Davíðs hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×