Innlent

Gunnar Bragi utanríkisráðherra: "Alvöru hlé“ á viðræðum við ESB

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Gunnar Bragi Sveinsson, nýr utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks- og Sjálfstæðisflokks, segist spenntur að taka við verkefninu. Hann segir að gert verði „alvöru hlé“ á aðildarviðræðum við ESB í samræmi við stefnu flokkanna.

Gunnar Bragi er 44 ára gamall og frá Sauðárkróki. Líkt og aðrir ráðherrar Framsóknarflokksins sest hann í ríkisstjórn í fyrsta sinn, en hefur setið á þingi frá 2009 og var áður formaður þingflokks Framsóknar.

„Ég ætla ekki að lýsa einhverju stóru yfir svona nokkrum mínútum eftir að hafa verið tilnefndur sem ráðherra, en það er alveg ljóst að samkvæmt sáttmálanum sem þessir tveir flokkar hafa gert, þá verður gert alvöru hlé á þessum viðræðum,“ segir Gunnar Bragi, aðspurður um orðalagið að gera hlé, en eins og flestum er kunnugt var fráfarandi ríkisstjórn búin að gera hlé á aðildarviðræðunum við ESB, svo fljótt á litið hefði „hlé“ ekki falið í sér efnislega breytingu frá ríkjandi ástandi í aðildarferlinu.  

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna tveggja kemur fram að úttekt verði gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan Evrópusambandsins. Úttektin verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gunnar Bragi segir að það verði m.a sitt verkefni sem utanríkisráðherra að leiða þessi verkefni til lykta. Verkefni tengd aðildarumsókninni og stöðvun viðræðna séu þó ekki einu áskoranir nýs ráðherra. 

„Það eru vitanlega mörg verkefni í þessu ráðuneyti og það verður gaman og mikil áskorun að takast á við verkefni sem snýr að Norðurslóðum og bæta samskipti í vestur og austur og allar áttir,“ segir nýr utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson.

Sjá má sjónvarpsviðtal við ráðherrann sem tekið var eftir þingflokksfundinn í kvöld, með því að smella á hlekk hér fyrir ofan eða hér. Þar ræðir hann ESB, málefni Kína og utanríkisstefnu forsetans, hugsanlegan niðurskurð í utanríkisþjónustunni og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×