Innlent

Reynslulitlir ráðherrar

Boði Logason skrifar
Ráðherrar nýju ríkisstjórnarinnar eru samtals með 45 ára þingreynslu.
Ráðherrar nýju ríkisstjórnarinnar eru samtals með 45 ára þingreynslu.

Ríkisstjórnin sem tekur formlega við völdum í dag er með töluvert minni þingreynslu en sú sem hefur setið síðustu fjögur ár. Ráðherrar nýju ríkisstjórnarinnar eru samanlagt með 45 ára þingreynslu samanborið við 131 árs þingreynslu ráðherranna sem eru að fara frá og ráðherrar gömlu stjórnarinnar voru líka einum færri en verða í nýju stjórninni.

Af nýju ráðherrunum hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, langmestu þingreynsluna en hann hefur setið á Alþingi frá árinu 2003 eða í 10 ár. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa samtals setið á Alþingi í 28 ár miðað við 17 ár Framsóknarflokksins. Allir ráðherrar Framsóknarflokksins voru kosnir fyrst á Alþingi árið 2009, en það ber þó að taka fram að Eygló Harðardóttir kom inn á Alþingi árið 2008 sem varamaður þegar að Guðni Ágústsson hætti á þingi.

Þingreynsla Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi forsætisráðherra, vegur mest en hún hefur setið á þingi í 35 ár og Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi atvinnuvegaráðherra í 30 ár.  Ögmundur Jónasson, fráfarandi innanríkisráðherra, er með 18 ára þingreynslu og Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, 22 ár.

Af núverandi þingmönnum á Alþingi er Steingrímur J. með langmestu þingreynsluna en hann hefur setið á Alþingi frá árinu 1983, eða í 30 ár eins og áður sagði. Tuttugu og sjö nýir þingmenn setjast nú á Alþingi eða tæplega 43 prósent allra þingmanna og rúmlega 68 prósent núverandi þingmanna eru með fjögurra ára þingreynslu eða minna.

Núverandi ríkisstjórn:

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra - 2008 - 5 ár

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra - 2009 - 4 ár

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra - 2009 - 4 ár

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar, sjávarútvegs og umhverfisráðherra - 2009 - 4 ár

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra - 2003 - 10 ár

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra - 2013 - 0 ár

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra - 2007 - 6 ár

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra - 2007 - 6 ár

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra - 2007 - 6 ár

Framsóknarflokkurinn - 17 ára þingreynsla

Sjálfstæðisflokkurinn - 28 ára þingreynsla

Samtals: 45 ár

Fráfarandi ríkisstjórn:

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra - 2007 - 6 ár

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra - 1978 - 35 ár

Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra - 2003 - 10 ár

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra - 1991 - 22 ár

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra - 2007 - 6 ár

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega og nýsköpunarráðherra - 1983 - 30 ár

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra - 2009 - 4 ár

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra - 1995 - 18 ár

Samfylking - 73 ára þingreynsla

Vinstri Grænir - 58 ára þingreynsla

Samtals: 131 ár






Fleiri fréttir

Sjá meira


×