Innlent

Meirihluti íbúa í Vestmannaeyjum vill ekki hótel við Hástein

Meirihluti íbúa í Vestmannaeyjum er andvígur því að hótel rísi við Hástein. Íbúakönnun sýnir að 56% eru andvígir hótelinu en 44% eru meðmæltir því. Alls voru greidd 1041 atkvæði og var þátttakan því um 33%.

Í tilkynningu segir að spurningin á atkvæðaseðlinum var eftirfarandi: "Vilt þú að Vestmannaeyjabær veiti byggingaleyfi fyrir hótel það sem kynnt hefur verið á lóðinni í Hásteinsgryfjunni?" og voru svarmöguleikarnir "Já" og "Nei".

Íbúakönnunin var ráðgefandi fyrir bæjarstjórn og mun bæjarstjórn nú taka sér tíma til þess að fara yfir málið með niðurstöðu könnunarinnar að leiðarljósi.  Jafnframt verður fundað með lóðarumsækjendum og þeim gerð grein fyrir niðurstöðu íbúakönnunarinnar og kannaður vilji þeirra til frekari samvinnu.

„Ég er fyrst og fremst afar ánægður með þátttökuna.  Um 33% allra þeirra sem rétt hafa til þátttöku völdu að hafa áhrif á sitt nærumhverfi á þennan máta.  Það sýnir að bæjarstjórn tók rétta ákvörðun þegar hún valdi að fara þá leið að leita til íbúa með þetta verkefni.  Þátttaka  var því  mun meiri en ég þorði að vona,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmanneyja um könnunina.

„Niðurstaðan kemur mér ekki mjög á óvart.  Um leið og Eyjamenn hafa einbeittan og skýran vilja til að þróa hjá sér öfluga ferðaþjónustu þá verður það að vera í sátt við heimamenn og umhverfi þeirra.  Ég lít sem svo á að þetta leggi enn ríkari kröfu á okkur í bæjarstjórn um að tryggja lóðir til framkvæmda sem eru þess eðlis að framsæknir aðilar í ferðaþjónustu geti þar komið upp öflugri þjónustu og heimamenn verið sáttir við staðsetninguna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×