Innlent

Sakfelldur fyrir ofbeldisfull kynferðisbrot gegn manni - hótaði að smita hann af AIDS

Jóhannes Stefánsson skrifar
Hæstiréttur þyngdi refsingu héraðsdóm um 18 mánuði.
Hæstiréttur þyngdi refsingu héraðsdóm um 18 mánuði. Mynd/ GVA

Maður var í Hæstarétti í dag dæmdur í þriggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingu fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn öðrum manni.

Mennirnir munu hafa farið heim til ákærða af vínveitingahúsi aðfaranótt sunnudagsins 29. maí 2011. Þegar þangað var komið beitti árásarmaðurinn brotaþola ofbeldi og hótunum með því að slá höfði hans utan í vegg, hóta honum ítrekað lífláti með hnífum sem voru á vettvangi og neyða brotaþolann til harkalegra munnmaka. Þá mun árásarmaðurinn hafa gert sig líklegan til endaþarmsmaka við brotaþolann og stöðugt hótað að hann myndi smita hann af AIDS.

Brotaþolinn fór að því búnu úr íbúð ákærða og lagði nokkru síðar fram kæru til lögreglu vegna þessa. Brotaþoli upplifði í kjölfar árásarinnar skömm, sektarkennd, kvíða, depurð og ótta. Árásarmaðurinn neitaði allan tímann sök og bar við minnisleysi um atburði kvöldsins.

Þá var ákærði einnig sviptur ökurétti ævilangt fyrir það að hafa mælst með meira en 3‰ áfengismagns í blóði eftir að lögregla hafði veitt honum eftirför þann 10. maí 2011, í óskyldu máli. Maðurinn var mjög ölvaður samkvæmt skýrslu lögreglu og samkvæmt sérfræðingi mun ákærði hafa verið „nálægt áfengiseitrun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×