Innlent

„Háskólinn tekur ekki tillit til fatlaðra“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir er ein 17 einstaklinga sem útskrifast með diplómu fyrir fatlað fólk í júní.
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir er ein 17 einstaklinga sem útskrifast með diplómu fyrir fatlað fólk í júní. MYND/VÍSIR

„Ég er bara alveg rosalega sorgmædd yfir þessu. Það er alltaf sagt að það eigi ekki að mismuna fötluðu fólki en ég finn mikið fyrir því í þessu tilfelli. Þetta er bara algjör skandall“, segir Steinunn Ása Þorvaldsdóttir. Steinunn hefur nú lokið hefur tveggja ára diplómanámi frá Háskóla Íslands ásamt 16 öðrum fötluðum einstaklingum. Þau fá ekki að útskrifast við hefðbunda athöfn í Laugardalshöll þann 22 júní.



Fatlaðir stúdentar hafa fengið þau skilaboð að þar sem diplómanám sé aðeins tvö ár geti þau ekki útskrifast með öðrum sem hafa lokið lengra námi. „Þetta er kerfinu að kenna, háskólinn tekur ekki tillit til fatlaðra. Samkvæmt þessum reglum þyrfti eitt ár að bætast við námið okkar svo við fengjum að útskrifast í Laugardalshöllinni með hinum“, segir Steinunn. Diplóma fyrir fatlaða er hæsta menntunarstig sem fatlaðir eiga völ á hér á landi. „Við verðum að fá undanþágu. Þetta er eina námið sem er í boði fyrir okkur, við höfum ekki úr neinu öðru að velja.“



Steinunn segir að það þurfi að passa betur upp á fatlaða fólkið í háskólanum. „Við erum búin að berjast fyrir þessu eins og við getum og höfum reynt að skýra okkar mál, en það er eins og enginn hlusti á okkur. Við vijum bara fá að útskrifast með hinum í Laugardalshöllinni. Þetta er ofboðslega fúlt“, segir hún og vill benda á að það gæti til dæmis verið góð hugmynd að fatlaðir fái sérstaka rödd innan háskólans. „Þetta er bara spurning um jafnrétti.“



Steinunn er þó jákvæð og spennt fyrir næstu vikum, en hluti af útskriftarhópnum mun opna kaffihúsið GÆS í Tjarnarbíói í júní. Hugmyndafræði kaffihússins byggir á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. „Við erum klárari en margir halda og getum allt sem við viljum“, segir Steinunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×