Innlent

Frjókornaofnæmi algengara en áður var talið

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Allir helstu ofnæmissérfræðingar á Norðurlöndunum komu saman til fundar á Reykjavik Natura um helgina til að ræða nýjustu rannsóknir í faginu.

Á meðal þeirra sem hélt þar erindi var Norðmaðurinn Torgeir Storaas sem er ofnæmissérfræðingur og háls-, nef- og eyrnalæknir. Hann hefur rannsakað frjókornaofnæmi og segir það mun algengara en áður var talið. Ástæðan er aðallega sú að venjuleg ofnæmispróf sem notuð eru ná ekki greina alla þá sem haldnir eru ofnæminu.

„Við höfum haft sérstakan áhuga á þessu undanfarinn áratug og hafa rannsóknir sýnt fram á að þótt ofnæmispróf sé neikvætt í blóðprufu og neikvætt samkvæmt húðprófi getur maður þó framleitt staðbundið mótefni í nefi vegna þess að maður getur haft ofnæmi í nösum,“ segir Torgeir í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þannig séu mun fleiri sem eru með langvinnar nefstíflur með ofnæmi en áður var talið eða allt að 25%. Hann segir að talið sé að allt að 40% fólks sé með frjókornaofnæmi.

Torgeir hefur gert tilraunir með að setja ofnæmisvaka beint í nefholið til að geta greint ofnæmið í stað húðprófs á handlegg eða annarra leiða sem venjulega eru notaðar. Með þessu segir hann að hægt sé að greina fleiri en áður.

„Því getur sjúklingum gagnast hefðbundin ofnæmislyf. Burtséð frá ofnæmislyfjum munu margir sem eru með bólgur í nefi sem eru ekki af völdum ofnæmis þó reyna að nýta sér sama lyfið. En við þurfum að vinna meira í þessu og reyna að finna góðar aðferðir til að mæla þetta í nefi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×