Innlent

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill álver í Helguvík

Karen Kjartansdóttir skrifar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, nýr iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fagnar því mjög hve forsætis- og fjármálaráðherra styðja uppbyggingu í Helguvík með afdráttarlasum hætti. Hún vill álver og kísilver á svæðið og segir fyrri ríkisstjórn hafa tafið fyrir málinu.

Í Helguvík er búið að smíða grind utan um álver en framkvæmdir liggja niðri, meðal annars vegna þess að ekki hafa náðst samningar milli orkufyrirtækja og Norðuráls um raforkukaup.

Í hádegisfréttum okkar sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að skoðað yrði hvort Landsvirkjun geti útvegað raforku til álversins í Helguvík, ef orkan fæst ekki annars staðar frá.

Hann segir mikilvægt að jákvæð viðhorf séu í garð þessara framkvæmda og um það sé samstaða milli stjórnarflokkanna. Málið sé afar mikilvægt fyrir Suðurnes og landið í heild.

Nýr iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kemur af Suðurnesjum og hefur lengi talað um mikilvægi uppbyggnigar í Helguvík. „Það sem ég hef beðið starfsfólk hér um að byrja að skoða hvort það er eitthvað að það er eitthvað sem stendur upp á þetta ráðuneyti og einnig að kanna til að mynda hvort sambærilegir samningar og gerðir voru gerðir á síðustu dögum þingsins í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi ívilnanir á Bakka, hort það er eitthvað sem er hægt að gera sambærilegt fyrir þetta verkefni, það er að segja álverið í Helguvík en einnig fyrir kísillver og annað sem þar er á döfinni.“

Ragnheiður segir að fyrri ríkisstjórn hafi tafið fyrir framkvæmdum og að sama skapi geti þessi ríkisstjórn flýtt fyrir málinu.

„Það er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem koma að þessu máli að vita það að við fögnum þessari framkvæmd og viljum koma henni í gang.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×