Innlent

Fundu 160 kíló af þýfi

Flytja átti þýfið út með Norrænu.
Flytja átti þýfið út með Norrænu.

Tollverðir fundu rúm 160 kíló af vörum sem talið er að sé þýfi í Norrænu við brottför skipsins frá Seyðisfirði í síðasta mánuði. Um var að ræða rúmlega 400 keramikeiningar, úr nýjum og notuðum hvarfakútum. Tveir erlendir karlmenn hugðust flytja vörurnar úr landi. Hið meinta þýfi var haldlagt á staðnum.

Hvarfakútar gegna því hlutverki að hreinsa útblástursloft bifreiða og draga úr skaðsemi þess fyrir umhverfið. Þynnur úr afar verðmætum málmum, svo sem platínu og palladíum, sem eru til dæmis einnig notaðir til skartgripagerðar, skapa þessa eiginleika hvarfakútanna. Í hverjum hvarfakút geta verið þrjár til fimm keramikeiningar og með ákveðnum aðferðum er unnt að einangra þessa góðmálma, sem þær hafa að geyma. Mennirnir tveir höfðu sankað að sér 128 einingum úr nýjum hvarfakútum og 273 úr notuðum kútum. Kaupverð hvers kúts getur hlaupið á tugum þúsunda króna.

Tollverðir unnu þetta verkefni í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, sem rannsakar nú málið. Í tilkynningu frá Tollstjóra segir að ekki verði veittar frekari upplýsingar um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×