Innlent

Íslendingurinn í Noregi verður ekki yfirheyrður fyrr en í næstu viku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn verður yfirheyrður í næstu viku.
Maðurinn verður yfirheyrður í næstu viku. Mynd/ Getty.

Íslenski  karlmaðurinn, sem grunaður er um morð í Noregi, verður líklegast ekki yfirheyrður fyrr en í næstu viku. Þetta segir Svein Kjetil Stallemo, verjandi hans, í samtali við Vísi.

„Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar að ráði frá lögreglunni. Lögreglan vill taka formlega skýrslu af honum áður en þeir gefa upplýsingar um það hvað vitni og aðrir hafa sagt,“ segir Stallemo í samtali við Vísi. Þegar maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í gær var það gert fyrir luktum dyrum. Stallemo segir að slíkt sé ekki venjan í Noregi. Saksóknari hafi aftur á móti farið fram á það í gær vegna þess að fjöldi vitna ætti eftir að gefa skýrslu og ekki væri kominn mynd á atburðarrásina. Hann hafi sjálfur samþykkt þá kröfu.

Maðurinn lést í samkvæmistjaldi, þar sem nokkrir voru saman komnir að skemmta sér. Íslendingurinn sem sakaður er um morðið mun hafa verið undir áhrifum áfengis eins og margir aðrir sem þar voru. Stallemo segir að ekkert liggi fyrir um það hvernig atburðarrásin var þegar maðurinn lést af sárum sínum. Hann segir skjólstæðing sinn muna hvernig seinni hluti dagsins og fyrri hluti kvöldsins var en man ekki aðdragandann að því að maðurinn lést.

Stallemo segir að lögreglan hafi talað við skjólstæðing sinn í klukkutíma morguninn sem hann var handtekinn. „Hann talaði þá við þá í klukkutíma,“ segir Stallemo. Hann segir að skjólstæðingur sinn vilji sýna lögreglunni samstarfsvilja. „Það er mikilvægt að hann að geta sagt lögreglunni sína hlið málsins en ég er ekki viss um að það geti gerst fyrr en í næstu viku,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×