Innlent

Forsætisráðherra, forseti, biskup og borgarstjóri öll úr sömu sveitinni

Kristján Hjálmarsson skrifar
Ættir fjórmenninganna hafa verið raktar á vef Reykhólahrepps.
Ættir fjórmenninganna hafa verið raktar á vef Reykhólahrepps.

Mörg af helstu fyrirmennum landsins; forseti Íslands, forsætisráðherra, borgarstjóri og biskup, eru öll ættuð úr sömu sveitinni, Reykhólahreppi í Austur-Barðarstrandarsýslu.

"Ég er sjálf aðflutt og hef þetta ekki í æðunum en eftir að hafa búið hér í að verða þrjú ár sé ég hversu rosalega sterkt og duglegt fólkið er sem kemur héðan. Því er í blóð borið að bjarga sér og komast áfram," segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólasveit, aðspurð um hvað valdi því að fólk úr sveitinni sé jafn áberandi og raun ber vitni.

"Ég held að fólkið hér hafi verið svolítið einangrað og hafi þurft að leggja mikið á sig til að komast af - það hafi verið rosalega duglegt og kallaði ekki allt ömmu sína. Það er einhver andi sem berst síðan áfram," segir sveitarstjórinn.

Á vef Reykhólahrepps eru ættir fyrirmennanna raktar. Þar kemur meðal annars fram að afi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta hét Ólafur Ragnar Hjartarson og fæddist á Kambi í Reykhólasveit en langafi forsetans, Hjörtur Bjarnason, var frá Hamarlandi í sömu sveit.

Afi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, Sigmundur Jónsson, fæddist líka og ólst upp á Kambi eins og afi Ólafs Ragnars.

Amma og afi Jóns Gnarr borgarstjóra voru hjónin Guðrún Guðmundsdóttir og Óskar Arinbjörnsson á Eyri í Kollafirði í Gufudalssveit.

Faðir Agnesar M. Sigurðardóttur biskups var Sigurður Kristjánsson frá Skerðingsstöðum í Reykhólasveit, sem lengi var prestur á Ísafirði.

Fjörugar umræður hafa skapast á vef Reykhólahrepps og þar kemur meðal annars fram að langalangaafi Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, Guðmundur Einarsson sé einnig úr sveitinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×