Innlent

Jón Gnarr varð fyrir hrottalegu einelti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri lýsir eineltinu sem hann varð fyrir í nýju blaði Barnaheilla.
Jón Gnarr borgarstjóri lýsir eineltinu sem hann varð fyrir í nýju blaði Barnaheilla.

Jón Gnarr borgarstjóri varð fyrir miklu einelti þegar hann var í Réttarholtsskóla í Reykjavík. Hann var alltaf kallaður Ljóti. „Eiginlega alveg frá fyrsta degi. Ég var kallaður Ljóti;.... Hey Ljóti, ertu pönkari. Hey Ljóti, af hverju ertu svona ljótur. Svo urðu þetta pústrar og hrindingar og alls kyns áreiti. Það voru alltaf eldri strákar sem stóðu fyrir þessu, en ég man aldrei eftir að stelpa hafi tekið þátt í einelti gagnvart mér,“ segir Jón í samtali við nýtt blað Barnaheilla – Save the Children á Íslandi sem kom út í gær.

Hann segir að skólafélagarnir hafi gert ýmislegt til þess að gera honum lífið leitt. Dótið hans hafi veirð tekið úr skólatöskunni hans og því hent í klósettið. Svo hafi eineltið stigmagnast í líkamlegt ofbeldi. Áfram hafi hann verið kallaður heimskur og ljótur.

Jón Gnarr segir að þeir sem verði fyrir einelti verði að hafa í huga að eineltið er ekki þeim að kenna og þeir beri ekki ábyrgð á því. Mikilvægt sé fyrir þá sem verða fyrir einelti að finna einhvern sem þeir geti talað við um það og fengið hjálp frá einhverjum sem þeir treysta.

Í nýju blaði Barnaheilla er  farið yfir helstu verkefni samtakanna og þar eru einnig viðtöl við ýmsa aðila um þætti sem snúa að starfsemi Barnaheilla og viðtöl við ýmsa einstaklinga, auk Jóns Gnarr, sem láta sig málefni barna varða. Til dæmis  talar Gunnar Hansson um kynferðislega misnotkun sem hann varð fyrir og hvernig hann hefur tekist á við þá reynslu, Vigdís Finnbogadóttir er verndari Barnaheila og talar hún um sýn sína á framtíð barna.

Í tilefni af útgáfu blaðsins var boðið til teitis á Marína í gær og má sjá nokkrar þeirra hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×