Innlent

Fá ekki að vera viðstaddir skýrslutökur hver hjá öðrum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hinir ákærðu voru viðstaddir þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hinir ákærðu voru viðstaddir þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að sjömenningar sem ákærður hafa verið fyrir að smygla um tuttugu kílóum af amfetamíni og um 1,7 lítra af amfetamínbasa fái ekki að vera viðstaddir skýrslutökur hjá hver öðrum við aðalmeðferð málsins. Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Mennirnir voru handteknir í byrjun ársins, en fimm þeirra eru Íslendingar og tveir Litháar. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa smyglað efninu inn með póstsendingu.

Í dómi Hæstaréttar kemur meðal annars fram að ef haldbær rök væru leidd að því að mál upplýstist með því að ákærði gæfi skýrslu fyrir dómi án þess að aðrir ákærðu væru viðstaddir yrði réttur þeirra til að vera við skýrslutökur hjá hver öðrum að víkja af þeim sökum. Þótti ákæruvaldið hafa fært fyrir því viðhlítandi rök að skýrsla skyldi tekin af hverjum þeirra án þess að þeir væru viðstaddir þá skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×