Innlent

Hjálmar vill skýringar á mengunarslysi

Frá hreinsunarstörfum eftir slysið.
Frá hreinsunarstörfum eftir slysið.

Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næst besta flokksins í Kópavogi, óskaði eftir greinagerð frá bæjarstjóra vegna olíuflutninga með þyrlu á vatnsendasvæði nærri Bláfjöllum í síðustu viku.

Mengunarslys varð á svæðinu þegar 600 lítrar af olíu helltust niður eftir að festingar gáfu sig á keri sem átti að flytja með þyrlu til Þríhnúkagígs.

Það var fyrirtækið Inside Volcano sem flutti olíuna en þeir höfðu til þess leyfi frá heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar og Kópavogsbæjar.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gagnrýnt ummæli eins af forsvarsmönnum fyrirtækisins sem flutti olíuna sem sagði að lítil hætta væri á að olíumengunin næði niður í drykkjarvatnið í grunnvatnsstraumnum. Eftirlitið segir þvert á móti málið grafalvarlegt.

Í fyrirspurn Hjálmars, sem lögð var fram á fundi bæjarráðs í gær, er einnig krafist skýringar á því að heilbrigðiseftirlit í Hafnarfirði og Kópavogi gáfu leyfi fyrir framkvæmdunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×