Innlent

Eftirlit hert í Vesturbænum

Helga Arnardóttir skrifar
Hringbrautin í Vesturbæ Reykjavíkur.
Hringbrautin í Vesturbæ Reykjavíkur.

Eftirlit lögreglu hefur verið hert í Vesturbænum og öðrum hverfum eftir að karlmaður tók tæplega ellefu ára stúlku upp í bíl og braut á henni kynferðislega í vikunni. Foreldrafélög allra skóla á svæðinu brýna fyrir foreldrum að fræða börnin sín um hvernig bregðast eigi við svona atvikum.

Ljóst er að foreldrar barna í vesturbænum eru slegnir yfir atvikinu síðasta þriðjudag og hafa foreldrafélög Grandaskóla, Vestubæjarskóla, Landakotsskóla, Melaskóla og Hagaskóla sent öllum foreldrum póst um hvernig bregðast eigi við svona alvarlegum atvikum.  Búist er við að umsjónakennarar og stjórnendur skólanna ræði við börn sem eru í þriðja til tíunda bekkjar um viðbrögð í svona málum. Brýnt er fyrir foreldrum barna í fyrsta og öðrum bekk grunnskólanna að ræða við börnin sín á rólegum nótum og á yfirvegaðan hátt án þess þó að hræða þau. Í póstinum til foreldra er farið yfir nokkur atriði sem ræða þarf við börn, sérstaklega að þau fari ekki upp í bíl með ókunnugum, fari strax á stað þar sem er fólk. Upplifi barn áreiti eða hættu sé það hvatt til að taka vel eftir öllu til dæmis bílnúmerum eða öðrum auðkennum.  Lögð er áhersla á að ræða þurfi málin á þann hátt að niðurstaðan verði ekki að börn vantreysti fullorðnum almennt.

Eftirlit lögreglu hefur verið hert í Vesturbænum eftir þetta atvik. Að sögn yfirlögregluþjóns á höfuðborgarsvæðinu verður lögreglan sýnileg í hverfinu og öðrum hverfum í grennd við skólana á næstu vikum.

Maðurinn sem grunaður er um að hafa numið stúlkuna á brott er á fertugsaldri og hefur ekki komið við sögu lögreglu áður vegna ofbeldisbrota.  Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á Litla hrauni til 29.maí. Í yfirheyrslum lögreglu ber hann við minnisleysi og fleira gefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ekki upp um málið að svo stöddu.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×