Innlent

Ótrúlegur munnsöfnuður íslendinga á netinu

Stefnum vegna meiðyrða á netinu hefur fjölgað undanfarin ár segir Hæstaréttarlögmaður og sífellt fleiri leita réttar síns vegna meiðandi ummæla á veraldarvefnum. Slík dómsmál geti oft hlaupið á nokkrum milljónum.

Netverjum hefur verið heitt í hamsi að undanförnu, annars vegar vegna ummæla Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur um opnunartíma í ÁTVR og hins vegar vegna ljósvakapistils Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu þar sem hún skrifaði um sínar vangaveltur um Alex Fergusson knattspyrnustjóra Manchester United.

Ummælin á netinu um þessar konur eru vægast sagt mjög harðorð. Áslaug Arna hefur verið kölluð heimsk og veruleikafirrt tík svo dæmi sé tekið.

Kolbrún hefur verið kölluð froðuheili, fáviti, rugluð, fávís blaðakona, hálfviti og svo framvegis. Og þetta skrifar fólk kinnroðalaust undir nafni og margir kunna sér ekki hóf. Flest þessara ummæla eru rituð á athugasemdakerfi fjölmiðlanna sem birtast einnig á Facebook-síðum þeirra sem ritar þau. En hversu langt megum við ganga á netinu?

„Það má í raun ekkert ganga lengra á netinu heldur en almennt. Þannig að það breytir engu hvort ummælin eru látin falla á netinu, í blaðagrein,í samtali manna á milli. Þegar þau hafa verið látin falla eða birta þá skiptir vettvangurinn ekki öllu máli," segir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstarréttarlögmaður sem rekur núna 10 dómsmál vegna meiðyrða og helmingur þeirra er vegna ummæla á netinu.   

 

„Það er alveg augljós aukning á meiðyrðamálum sem eru rekin fyrir dómstólum. Það er alveg pottþétt."

Lögin séu skýr og dómstólar hafi einnig fellt afgerandi dóma í þessum efnum en það virðist ekki hafa áhrif á suma netverja. Vilhjálmur segir mikilvægt að fólk hugsi sig um áður en það lætur falla meiðandi ummæli á netinu þar sem dómsmál geti orðið fólki dýrkeypt og oft hlaupið á nokkrum milljónum.   

„Fólk er ekkert mikið að velta þessu fyrir sér áður en það slengir þessu fram þannig að ég held að það sé partur af þessu. Fólk passar sig ekki nógu vel," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×