Innlent

Hús umlukið snjóskafli

Ingveldur Geirsdóttir skrifar

Þó komið sé fram í miðjan maí ræður veturkonungur enn ríkjum í Dalvíkurbyggð. Vorið hefur ekki náð að velta honum úr sessi þó víða sé farið að glitta í græna bletti. Fyrsti snjórinn féll í október og svo bættist hvert snjóalagið við á eftir öðru og aldrei hlánaði á milli.

Svanfríður Jónasdóttir sveitarstjóri segir kostnað sveitarfélagsins við snjómokstur nánast þrefaldan á við meðalár og það taki verulega á bæjarsjóð.

„Það eru komnar á milli 40 og 50 milljónir í vetur í snjómokstur. Þegar við erum vön að vera að borga 13 til 14 milljónir. Þannig þetta er meira en að segja það og þetta eru þá peningar sem eru ekki notaðir í annað, því miður," segir Svanfríður.

Þegar leið á veturinn var ekki pláss fyrir þann snjó sem þurfti að moka af götunum í bænum svo brugðir var á  það ráð að aka honum út í sjó sem eykur kostnaðinn við snjómoksturinn til muna að sögn Svanfríðar.

„Við bindum samt vonir við það að við fáum skilning á því eins og hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að þetta eru hamfarir sem við fáum ekki ráðið við. Það er ekki sanngjarnt þegar svona veður ganga yfir á takmörkuðum svæðum á landinu að íbúarnir þar séu látnir bera kostnaðinn einir," segir Svanfríður.

Hæstu skaflarnir í bænum eru enn á fjórða meter á hæð og þéttir eins og jökull. Nú þegar snjóa er að leysa sjást skemmdirnar sem hann hefur valdið; girðingar, gróður og leiktæki koma löskuð undan snjónum.

Íbúðarhús við Hringtún á Dalvík er enn á kafi í snjó. Um tveggja metra snjódýft er á garðinum en á sama tíma í fyrra voru íbúar hússins búnir að setja niður kartöflur.

Guðmundur Óskarsson íbúi í húsinu segir að þau sjái ekki fram á að setja kartöflurnar niður í ár fyrr en í júlí.

Íbúar á Dalvík hafa brugðið á ýmis ráð til að flýta fyrir bráðnun skaflanna, sandi hefur verið dreift á snjóinn til að hann hitni fyrr  og Guðmundur hefur notað garðvökvunarbúnaðinn til að bleyta upp í snjónum með von um að hann bráðni fyrr. Verst þykir honum hvað snjórinn fer illa með gróðurinn og þá er snúrustaurinn í garðinum mjög illa farinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×