Innlent

Skattar og ríkisfjármál rædd yfir pönnsum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Formennirnir fengu pönnukökur með kaffinu í dag.
Formennirnir fengu pönnukökur með kaffinu í dag. Mynd/Svanhildur Hólm
Fundi formanna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er lokið í dag og eru þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson á leið í bæinn. Þetta var annar fundur formannanna í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum þeirra, og hafa þeir hreiðrað um sig í sumarbústað við Þingvallavatn ásamt aðstoðarmönnum sínum.

„Við höfum byrjað á því að ræða þessi ár sem eru framundan. Hvað sé mikilvægast að hafa í huga og hvaða ráðstafanir sé nauðsynlegt að gera til þess að örva hagkerfið og loka fjárlagagatinu,“ segir Bjarni í samtali við fréttamann Vísis eftir það sem hann segir hafa verið árangursríkan fund. „Við erum ekki farnir að ræða útfærslur í neinum smáatriðum en tíminn hefur nýst vel til að fara yfir stóru myndina.“

Bjarni segir góðan samhljóm með þeim Sigmundi Davíð í helstu málaflokkum, og ríkisfjármál, skattar og efnahagsmál hafi verið rædd í víðu samhengi í dag. Enn eigi þeir eftir að fara nánar ofan í einstök atriði á borð við skuldamál heimilanna. Hann segist þó vongóður um að þeir muni ná saman í þeim málaflokki sem öðrum.

„Það sem sameinar flokkana í skuldamálunum er að báðir flokkar telja nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að létta undir með heimilunum og taka á skuldavandanum. Það gefur mér ástæðu til að ætla að okkur muni takast að finna sameiginlegan flöt á því máli.“

Einn dagur tekinn í einu

Aðspurður hvort formennirnir hafi rætt skiptingu ráðuneyta og sjálft forsætisráðherraembættið segir Bjarni svo ekki vera.

„Við höfum ekkert ákveðið varðandi fjölda ráðuneyta eða skiptingu þeirra milli flokkana í neinu samhengi. Það er vissulega hluti af þessum viðræðum og það kemur að því að við tökum á þeim málum, en fyrst þurfa menn að ná sameiginlegri sýn á málefnin.“

Bjarni segir formennina ekki hafa sett sér strangan tímaramma á viðræðurnar og þeir taki einn dag í einu.

„Þó er það mitt mat að öðru hvorum megin við helgina hljóti að vera hægt að fá skýra mynd á niðurstöðuna.“

Greint var frá því í fyrradag að formennirnir hefðu gætt sér á vöfflum með kaffinu, og í dag voru það pönnukökur sem urðu fyrir valinu. Bjarni veit ekki hvað verður á boðstólnum á fundi morgundagsins.

„Ætli við fáum okkur ekki bara flatkökur á morgun þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×