Innlent

Tæpur helmingur heimila á erfitt með að láta enda ná saman

Jón Hákon Halldórsson skrifar
10,1% heimila höfðu lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu, samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands fyrir árið 2012. Svarendur voru spurðir út í stöðuna tólf mánuði áður en könnunin var gerð en hún var gerð á tímabilinu mars til maí á síðasta ári. Niðurstöðurnar voru svo birtar í morgun. 10,4% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili. Rúm 27% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og tæp 14% heimila töldu greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána þunga.

Árið 2012 áttu 48,2% heimila erfitt með að ná endum saman og tæp 36% heimila gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 157 þúsund með þeim leiðum sem þau venjulega nýta til að standa undir útgjöldum. Þegar heildarmyndin er skoðuð fækkaði heimilum í fjárhagsvanda milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2008.

Einstæðir foreldrar eru líklegri en aðrir hópar til að vera í fjárhagsvanda og konur sem búa einar lenda síður í vanskilum með lán en karlar sem búa einir. Heimili þar sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga var 30-39 ár voru í mestum erfiðleikum. Því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er á heimilinu því minni líkur eru á því að heimilið eigi í fjárhagserfiðleikum.

Niðurstöðurnar eru fengnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún er liður í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC). Úrtak lífskjararannsóknarinnar 2012 var 4.347 heimili. Eftir að þeir sem eru látnir og búsettir erlendis hafa verið dregnir frá var nettó úrtakið 4.018 heimili. Svör fengust frá 3.091 heimilum sem er 77% svarhlutfall. Lífskjararannsóknin var framkvæmd í mars til maí árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×