Innlent

Viðbúið að héraðsdómur hafni ósk verjendanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gestur Jónsson og Ragnar Hall tilkynna ákvörðun sína á blaðamannafundi.
Gestur Jónsson og Ragnar Hall tilkynna ákvörðun sína á blaðamannafundi.
Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður telur viðbúð að Héraðsdómur Reykjavíkur muni synja beiðni hæstaréttarlögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Hall um að fá að segja sig frá al-Thani málinu. Þeir Gestur og Ragnar, sem eru verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, héldu blaðamannafund í dag þar sem þeir kynntu þessa ákvörðun sína.

„Vegna þess að þeir féllust á að vera skipaðir verjendur og hafa tekið að sér þann starfa. Augljóslega myndi það tefja framgang málsins ef dómari færi að skipta um verjendur í miðri á. Þetta þyrftu að vera einhverjar ástæður sem dómstóllinn féllist á, eins og það að menn yrðu lasnir eða með aðrar lögmætar ástæður. en ástæðurnar, sem maður les um í fjölmiðlum, eru aðrar," segir Sveinn Andri í samtali við Vísi.

Hann segist lesa það út úr fréttum sem hann hafi séð af málinu að ástæður lögmannanna séu bræði yfir því að Hæstiréttur skyldi hafa kveðið upp úrskurð um málsmeðferðina áður en aðalmeðferð hófst. „En þegar hæstaréttarlögmenn eru skipaðir lögmenn verða þeir að sætta sig við það að Hæstiréttur hefur lokaorðið þegar kemur að meðferð sakamála," segir Sveinn Andri. „Það er ekkert nýtt að verjendur hafi orðið ósáttir við niðurstöðu Hæstaréttar en svona eru bara leikreglurnar," segir Sveinn Andri.

Sveinn Andri segist sjálfur hafa reynt að segja sig frá máli, stóru fíkniefnamáli fyrir fáeinum misserum, en dómari hafi hafnað því.

Máli sínu til stuðnings vísar Sveinn Andri í 20. grein laga um lögmenn og 34. grein sakamálalaga. Þær má sjá hér að neðan:



20. gr. Lögmanni er skylt að taka við skipun [eða tilnefningu]1) sem verjandi eða réttargæslumaður í [sakamáli],2) enda fullnægi hann til þess hæfisskilyrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna að gæta vegna sjálfs sín, venslamanna sinna eða annars umbjóðanda síns.

- Að öðru leyti en leiðir af 1. mgr. er lögmanni aldrei skylt að taka að sér verk sem leitað er til hans um.



34. gr. Nú óskar sakborningur eftir því að skipun eða tilnefning verjanda verði afturkölluð og nýr verjandi skipaður eða tilnefndur og skal þá verða við slíkri ósk nema hætta sé á að málið tefjist af þeim sökum.

Ef ætla má að verjandi muni hindra eða hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða hafi brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt getur ákærandi eða lögregla leitað atbeina dómara og krafist þess að hann verði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað. Verjandinn getur krafist þess að dómari úrskurði um þá kröfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×