Innlent

Varhugavert að auglýsa ferðaáætlunina

Kjartan Hreinn njálsson skrifar
Landsmenn leggja nú margir land undir fót og sem fyrr er mikilvægt að ganga frá sínum málum heima fyrir. Varhugavert er að auglýsa ferðaáætlunina á Facebook en svo virðist sem að margir gleymi öðrum samfélagsmiðlum.

Ein stærsta ferðavika ársins stendur nú sem hæst og fjölmargir hyggja á ævintýraferðir um íslenska eða erlenda náttúru. En áður en skellt er í lás og haldið á út í helgina er mikilvægt að tryggja öryggi heimilisins.

„Það sem við höfum líka verið að gera er að ráðleggja fólki að reyna láta líta út fyrir að það sé einhvern heima. Skilja eftir útvarp eða ljós, jafnvel að fá nágranna til að nota bílastæðin eða nota ruslatunnuna," segir Rannveig Þórisdóttir deildarstjóri á upplýsinga- og áætlanadeild LRH.

Sem fyrr ítrekar Rannveig mikilvægi samskiptamiðla í þessum efnum. Í heimi þar sem allir tengjast öllum er nauðsynlegt að halda vissum upplýsingum leyndum.

„Í gamla daga vorum við að segja fólki að vera ekki að segja á símsvaranum að það sé farið í frí. Núna segjum við fólki að tilkynna það ekki á Facebook. Svo má kannski líka muna eftir Instagram og twitter og öllu þessu. Sem við gleymum að passa upp á."

Þetta eru þó fyrst og fremst vinalegar ábendingar frá lögreglunni. Staðreyndin er sú að innbrotum hefur fækkað töluvert á undanförnum misserum.

Þannig áætlar Ríkislögreglustjóri að innbrot á tímabilinu mars tvö þúsund og tólf til febrúar tvö þúsund og þrettán hafi verið tæplega þrettán hundruð. Á sama tímabili í fyrra voru þau átján hundruð og fimmtíu og tvö þúsund og sjö hundruð yfir sama tímabil árin tvö þúsund og tíu til tvö þúsund og ellefu.

„Þetta er kannski út af því að fólk er meðvitað. Við viljum alls ekki vera að hræða fólk. Það er mjög gott að vera meðvitaður og skynsamur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×