Innlent

Rappar um nýja stjórnarskrá

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður sem sæti átti í stjórnlaganefnd, er einn þeirra sem rappa við lagið „Nýja stjórnarskrá" sem tekið hefur verið upp. Textinn er úr smiðju Ómars.

Hægt er að hlusta á lagið hérna.

„Stundum þarf að hafa hraðar hendur til að gera hlutina, áður en það er orðið of seint," segir Ómar um viðfangsefni Alþingis að klára stjórnarskrármálið. Ómar fjallar um lagið á bloggsíðu sinni þar sem hann minnir á að Alþingi gegni hlutverki vertaka og verkbeiðandinn sé 2/3 hlutar þeirra sem atkvæði greiddu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Og valdið á að vera hjá þjóðinni, eða er það ekki?" spyr Ómar. Í laginu er ekki notast við hefðbundin hljóðfæri heldur venjuleg búsáhöld, bakraddir auk þess sem nýstárleg búkhljóð eins og taktur er myndaður af vörum og munnholi Ómars sjálfs. Segir hann það líklega ekki hafa heyrst áður á upptöku.

Textann við lagið má sjá hér að neðan.

NÝJA STJÓRNARSKRÁ!

Jón Sigurðsson og Fjölnismenn, þeir fóru af stað

svo í frelsismálum okkar yrði brotið blað.

Stjórnlagaþing að semja stjórnarskrá

var stofnað með pompi og pragt, ó, já !

Þingið hlaut nafnið Þjóðfundur

en þegar sem hæst sá stóð fundur

sleit Trampe greifi´honum með gerræði

en gervalllur Þjóðfundurinn hrópaði:

Vér mótmælum allir ! Vér mótmælum allir !

Við viljum stjórnarskrá! Við viljum stjórnarskrá !

Hundrað og sextíu árum síðar varð hrun

með sjóðandi reiði, sem fór hér á brun.

Þá varð bylting, sem kennd var við búsáhöld

og var beint gegn spillingu, sem haft hafði völd.

Eitt af því helsta sem var uppi þá

var alveg ný, heildstæð og góð stjórnarskrá

og líkt og á Þjóðfundinum átján fimmtíu´og eitt

ómaði herópið, einfalt og beitt:

Við viljum stjórnarskrá! Nýja stjórnarskrá!

Við viljum stjórnarskrá! Nýja stjórnarskrá !

Í þjóðaratkvæðagreiðslu síðan gerðist það

að góður meirihluti ákvað að

Alþingi lyki við það einfalda verk

að afgreiða stjórnlögin, vönduð og merk.

Og af því að vilji er allt, sem þarf

á ekki að líðast að tefja það starf

en gera´þetta´án tafar, án gremju´eða háðs

á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.

Við viljum stjórnarskrá! Nýja stjórnarskrá!

Við viljum stjórnarskrá ! Nýja stjórnarskrá !

Á þjóðfundinum forðum var viljinn mjög skýr,

sá vilji, sem í frjálshuga þjóðum býr.

Í atkvæðum þjóðar í október hér

var afgerandi vilji sem að hlíta ber!

Við spyrjum þjóna almennings, Alþingismenn:

Er andi Trampe greifa á sveimi enn ?

og þess vegna við berjum aftur búsáhöld

til að benda á að þjóðarinnar skulu öll völd.

Við viljum stjórnarskrá ! Nýja stjórnarskrá !

Við viljum stjórnarskrá ! Nýja stjórnarskrá !




Fleiri fréttir

Sjá meira


×