Skoðun

Formaður VR á að vera formaður allra félagsmanna

Ólafía B. Rafnsdóttir og frambjóðandi til formanns VR skrifa
Mannsæmandi laun í réttlátu samfélagi

Það eru blikur á lofti í íslensku samfélagi. Frá efnahagshruninu 2008 hafa launamenn tekið á sig gríðarlegar kjaraskerðingar og víða er orðið þröngt í búi. Ef fram heldur sem horfir mun barátta fyrir betri launum og meiri kaupmætti verða fyrirferðarmikil á næstu misserum. Verkalýðshreyfingin á að taka forystu um nýja þjóðarsátt um stöðugleika á vinnumarkaði og fá til liðs við sig atvinnuveitendur og stjórnvöld. Réttlátt samfélag verður ekki til nema launafólk geti lifað af mannsæmandi launum. Fyrir því verður að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Örugg heimili brýnt kjaramál

Dæmi eru um að fólk greiði stóran hluta launa sinna í húsnæðiskostnað og sé að gefast upp. Frá hruni horfum við fram á hópa fólks á ýmsum aldri sem hefur misst húsnæði sitt og á engra annarra kosta völ en að vera á erfiðum og dýrum leigumarkaði. Það verða að koma nýir valkostir í búsetumálum og VR á að taka þátt í að fjölga þeim. Við þurfum alvöru leigumarkað íbúðarhúsnæðis eins og tíðkast á Norðurlöndum og stuðla að heilbrigðri fjármögnun eigin húsnæðis með lækkun vaxta. Öruggt heimili er einn af mikilvægustu þáttum velferðarsamfélagsins og sömuleiðis mikilvægt kjaramál.

Mikilvægi starfsþróunar

Ég hætti í skóla aðeins 14 ára gömul, eignaðist mitt fyrsta barn og fór síðan á vinnumarkaðinn. Ég var rúmlega fertug þegar ég fór aftur í nám og hef síðan þá nýtt mér þá fjölbreyttu möguleika til menntunar sem í boði eru. Ég hef mikinn áhuga á starfsmenntamálum en þar þarf einnig að taka til hendinni. Margir vildu gjarnan komast í nám en geta það ekki vegna langs vinnutíma, fjölskylduaðstæðna eða kjara svo dæmi séu tekin. VR þarf að setja starfsmenntamál í öndvegi. Árlega nýta einungis 10%-15% VR félaga þá styrki sem starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks býður upp á. Félagið þarf að aðstoða félagsmenn sína með markvissari hætti til að grípa ný tækifæri, endurmennta sig og gera sig hæfari á síbreytilegum vinnumarkaði. Nú er komið verkfæri þar sem reynsla og þekking fólks á vinnumarkaði er metið, svokallað raunfærnimati. Loks er það viðurkennt að hægt sé að læra á vinnumarkaði eins og í skóla!

Sveigjanleg starfslok mannréttindamál

Ný áhersla á sveigjanleg starfslok er tímabær og nauðsynleg. Það er mannréttindamál að launamenn hafi val um hvenær og hvernig þeir hætta störfum. Fólk er heilsuhraustara en það var fyrrum og vill vera lengur á vinnumarkaði á sama tíma og aðrir vilja minnka starfshlutfall eftir því sem aldurinn færist yfir. Umræða þarf að fara að stað með hvaða hætti hægt sé að koma til móts við þennan hóp félagsmanna VR.

Jafnréttismál

Undanfarið hafa auglýsingar um jafnlaunavottun VR verið í fjölmiðlum. Vinna við gerð jafnlaunastaðals hófst árið 2008 skv. ákvæðum jafnréttislaga og bókunar við kjarasamning Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði frá febrúar 2008. VR hefur svo tekið málið lengra sem vonandi skilar okkur í átt að jafnrétti. Talið er að konur á Íslandi verði af fimm milljörðum króna árlega vegna mismununar í launum. Glerveggir sem konur hafa löngum rekið sig á eru sýnilegri í dag af því að íslenskt samfélag, bæði konur og karlar, eru meðvitaðri um þá mismunun sem konur hafa löngum búið við á vinnumarkaði. Jafnrétti snýst einnig um það að konur veljist til forystu í samfélaginu, því þurfa konur líka að stíga fram og gefa kost á sér til ábyrgðarstarfa. Ég býð mig fram til formanns VR vegna þess að ég tel mig geta gert betur.

Grasrótin

Trúnaðarráð VR þarf að virkja með skipulegri hætti en gert er. Þannig ættu fulltrúar úr trúnaðarráði að sitja í flestum nefndum og ráðum á vegum félagsins.

Að lokum

Ég stefni að því að verða formaður allra félagsmanna VR. Það þarf dirfsku og styrk til að snúa vörn í sókn í kjarabaráttu næstu missera sem og að tryggja starfsöryggi þess fjölbreytta hóps sem er í VR.

Ég óska eftir brautargengi til formanns VR. Ég er viss um að reynsla mín af margskonar störfum síðastliðin 30 ár komi félaginu að góðum notum næstu árin.

Vinnum saman að enn sterkara og betra félagi fyrir okkur öll




Skoðun

Sjá meira


×