Fótbolti

City sagt reiðubúið að borga tíu milljarða fyrir Neymar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enski vefmiðillinn Goal.com heldur því fram í dag að Manchester City hafi hug á lokka Brasilíumanninn Neymar til félagsins í sumar.

Forráðamenn félagsins eru sagðir tilbúnir að leggja fram tilboð upp á 57 milljónir evra, eða rétt tæpar tíu millarða króna.

Neymar er samningsbundinn félagi sínu, Santos í Brasilíu, til 2014 og hefur margoft sagt að hann ætli sér að vera um kyrrt í heimalandinu þangað til að samningurinn rennur út.

Einnig hefur margoft komið fram að Neymar sé á leið til Barcelona og að aðilar hafi nú þegar gert með sér leynilegt samkomulag þess efnis. Því hefur verið staðfastlega neitað af öllum aðilum.

Fullyrt er að þeir Ferran Soriano og Txiki Begiristain hafi fyrir hönd City rætt við fulltrúa Neymar þegar sá síðastnefndi spilaði með brasilíska landsliðinu gegn Englandi á Wembley í upphafi mánaðarins.

Þá er Bigiristain einnig sagður hafa flogið til Brasilíu fyrir tveimur mánuðum til að funda með forráðamönnum Santos um möguleg kaup á Neymar.

Neymar er gríðarlega vinsæll í Brasilíu og þénar himinháar upphæðir þrátt fyrir að hann gæti fengið hærri laun hjá stórliði í Brasilíu. Langstærstur hluti teknanna kemur vegna auglýsingasamninga en samkvæmt fjölmiðlum í Brasilíu sáu laun hans hjá Santos aðeins fyrir átta prósentum heildartekna hans í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×