Innlent

Flóðin enn ekki náð hámarki

Mynd úr safni.
Flóðin í Hvítá og Ölfusá hafa ekki náð hámarki og varar Veðurstofan við umferð á svæðinu.

Matthew James Roberts, verkefnisstjóri vatnaváreftirlits Veðurstofunnar, segir rennslið enn vera að aukast í Ölfusá við Selfoss. „Fyrir nokkrum mínútum síðan var rennslið 1150 rúmmetrar á sekúndu sem er svakalega mikið flóð. Venjulegt rennsli í Ölfusá á þessum árstíma er nokkruð hundruð rúmmetrar."

Roberts segist vonast til þess að flóðið nái hámarki milli klukkan fimm og sex í dag. Mikil rigning sé á vatnasvæði Ölfusár við Langjökul og mikið vatn bíði þess að renna niður Hvítá.

„Það er hættulegt að vera nálægt ánni. Við ráðleggjum fólki að halda sig fjarri og reyna ekki að sjá flóðið í návígi. Halda sig frá árbökkunum og flatlendi við ána, eins og til dæmis Auðholtshverfi," segir Roberts og segir bændur á svæðinu hafa flutt hesta sína burt frá ánni.

„Þarna getur vatnið mjög auðveldlega runnið langt frá ánni á mjög stuttum tíma og þar gæti verið hætta á ferð."

Ný tilkynning birtist á vef Veðurstofu Íslands um klukkan hálf tólf í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×