Íslenski boltinn

Eini bikarinn sem Bjarni hefur ekki lyft

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson lyftir hér Íslandsbikarnum haustið 2011.
Bjarni Guðjónsson lyftir hér Íslandsbikarnum haustið 2011. Mynd/Daníel
KR-ingar eiga enn eftir að vinna Reykjavíkurmeistaratitil karla í fótbolta undir stjórn Rúnars Kristinssonar en í gær töpuðu þeir þriðja árið í röð í úrslitaleik keppninnar. Leiknir varð þá Reykjavíkurmeistari í fyrsta sinn eftir 3-2 sigur á KR í Egilshöllinni.

KR tapaði 0-5 fyrir Fram í úrslitaleiknum 2011 og 0-1 fyrir Val í úrslitaleiknum 2010. Bæði árin boðaði þetta gott fyrir KR um sumarið því KR varð Íslands- og bikarmeistari sumarið 2011 og svo bikarmeistari í fyrra.

Nú er staðan hinsvegar sú að Reykjavíkurmeistarabikarinn er nú eini bikarinn sem Bjarni Guðjónson hefur ekki lyft síðan að hann tók við fyrirliðabandinu í Vesturbænum og jafnframt eini bikarinn sem KR-liðið hefur ekki unnið undir stjórn Rúnars Kristinssonar.

Rúnar Kristinsson stjórnaði liði KR reyndar ekki í gær heldur Pétur Pétursson. Rúnar var staddur á þjálfaranámskeiði í Englandi.

Bjarni Guðjónsson varð Reykjavíkurmeistari með KR 2009 og 2010 en ekki sem fyrirliði. Grétar Sigfinnur Sigurðarson lyfti Reykjavíkurmeistarabikarnum síðast þegar KR vann hann 2010 og árið áður hafði Jónas Guðni Sævarsson tekið við honum. Bjarni spilaði báða þessa úrslitaleiki.

Bjarni tók hinsvegar við Íslandsbikarnum 2011, bikarnum 2011 og 2012, deildarbikarnum 2010 og 2012 og bikarnum fyrir sigur í Meistarakeppni KSÍ 2012. Það er því bara einn bikar sem Bjarni hefur ekki náð að lyfta sem fyrirliði KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×