Fótbolti

Heiður að spila á móti Eiði Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Scholz, til hægri, í leik með Lokeren fyrr í þessum mánuði.
Alexander Scholz, til hægri, í leik með Lokeren fyrr í þessum mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Alexander Scholz þótti eiga stórleik þegar að lið hans, Lokeren, gerði 1-1 jafntefli við Club Brugge í belgísku úrvalsdeildinni í gær.

Scholz spilaði með Stjörnunni í Pepsi-deild karla á síðasta tímabili og var einn besti leikmaður liðsins. Hann hefur byrjað mjög vel í Belgíu og vakið hrifningu fjölmiðla ytra.

Um helgina fékk hann það hlutverk að gæta Eiðs Smára. „Það var heiður fyrir mig að spila gegn Eiði Smára, sem spilaði áður með Chelsea og Barcelona," sagði Scholz við belgíska fjölmiðla eftir leikinn.

„Ég heyrði mikið um hann þegar ég spilaði á Íslandi. Nú var það mitt hlutverk að halda honum úr leiknum," bætti hann við en samkvæmt umfjöllun Het Nieuwsblad náði Eiður Smári sér ekki á strik í leiknum. „Það er mikið hrós fyrir mig. En því miður dugði það ekki til að vinna leikinn."

Scholz komst einnig nálægt því að skora í leiknum en Vladan Kujovic, markvörður Club Brugge, varði glæsilega frá honum.

Þess má geta að Arnar Grétarsson, sem var í haust ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge, ráðlagði Lokeren á sínum tíma að kaupa Scholz. Kaupin þykja ein þau bestu í belgísku úrvalsdeildinni í ár.

Arnar lék með Lokeren í sex ár, frá 2000 til 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×