Sport

Lindsey Vonn sleit allt í hnénu - tímabilið búið og ÓL í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Vonn.
Lindsey Vonn. Mynd/AP
Tímabilið er búið hjá hinni 28 ára gömlu Lindsey Vonn eftir að hún sleit allt í hægra hnénu sínu í stórsvigskeppninni á heimsmeistaramótinu í Alpagreinum sem fer þessa dagana fram í Austurríki. Lindsey Vonn er frægasta og sigursælasta skíðakona heims undanfarin ár en þetta var fyrsti keppnisdagurinn á mótinu í Schladming í Austurríki.

Læknir á sjúkrahúsinu í Schladming staðfesti við formann austurríska skíðasambandsins að Lindsey Vonn hafi slitið krossband og önnur liðbönd í hægra hnénu. Hún féll illa í brautinni en slysið varð stuttu eftir tvö í dag. Vonn var flutt í þyrlu á næsta sjúkrahús en hugað var að henni í brekkunni í tólf mínútur áður en þyrlan fór með hana á spítalann.

Það er ljóst að Lindsey Vonn keppir ekki meira á þessu tímabili og nær því ekki að verja Heimsbikarmeistaratitla sína en hún vann fjóra titla í Heimsbikarnum á síðasta ári, í stórsvigi, bruni, tvíkeppni og samanlögðu.

Þá er ekki öruggt að Vonn nái að komast í keppnisform fyrir Ólympíuleikana í Sochi í Rússlandi sem fara fram eftir ár en þar ætlaði sú bandaríska að bæta við Ólympíugullið sem hún vann í bruni á leikunum í Vancouver fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×