Fótbolti

Kolbeinn verður í hópnum á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson fær vonandi að koma inn á um helgina.
Kolbeinn Sigþórsson fær vonandi að koma inn á um helgina. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson er kominn af stað á ný með Ajax eftir meiðsli en íslenski landsliðsframherjinn er þó ekki farinn að spila með liðinu. Kolbeinn verður ekki í leikmannahópi Ajax í kvöld þegar liðið mætir Vitesse í átta liða úrslitum hollenska bikarsins.

Frank de Boer, þjálfari Ajax, sagði í viðtali við heimasíðu félagsins að félagið ætli að fara varlega með Kolbein í endurkomunni. Kolbeinn er farinn að æfa á fullu og spilaði með varaliðinu á mánudaginn.

„Kolbeinn spilaði 45 mínútur á mánudaginn og stóð sig mjög vel. Það er of mikið fyrir hann eftir svona langa fjarveru vegna meiðsla, að spila aftur í kvöld. Hann verður á bekknum á móti VVV á sunnudaginn," sagði Frank de Boer.

Kolbeinn Sigþórsson hefur ekki spilað með Ajax síðan í 2-2 jafntefli á móti AZ Alkmaar í fyrstu umferð hollensku deildarinnar 12. ágúst síðastliðinn en hann þurfti að fara í aðgerð á öxl. Síðasti opinberi leikur hans var í 2-0 sigri á Færeyjum á Laugardalsvellinum en Kolbeinn skoraði bæði mörk íslenska liðsins í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×