Innlent

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna lýsir yfir þungum áhyggjum

Stjórn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna lýsir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem yfirvofandi er vegna uppsagna hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum almennt og Barnaspítala Hringsins sérstaklega. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Yfir þriðjungur hjúkrunarfræðinga á Barnadeild LSH og Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins hefur sagt upp störfum, hvort sem litið er til fjölda hjúkrunarfræðinga eða stöðugilda og á Barnadeildinni nema uppsagnir yfir 40% stöðugilda.

„Í því ljósi er mikil röskun á starfsemi Barnaspítalans fyrirséð sem hugsanlega mun bitna á öryggi sjúklinga sem þar þurfa að fá þjónustu.

Sambærileg þjónusta er hvergi annars staðar í boði hérlendis," segir í tilkynningu. Þar segir ennfremur að börn séu meðal viðkvæmustu skjólstæðinga Landspítalans og umönnun þeirra krefst bæði sérhæfingar og alúðar.

Það traust sem myndast á milli barnanna, aðstandenda þeirra og þess frábæra fagfólks sem þeim sinnir hefur mikið um líðan barnanna og bata að segja. Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttir til starfa í öðrum löndum og raunveruleg hætta að þeir hverfi til starfa utan landsteinanna. Stjórnin hefur áhyggjur af þeirri hættu. „Það munar um hvern og einn," segir í ályktunni.

Stjórn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna hvetur heilbrigðisyfirvöld og yfirstjórn LSH til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að bægja frá þeirri óvissu sem nú ríkir um starfsemi á Barnaspítalanum og Landspítala öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×