Innlent

Oddný vill verða varaformaður - Katrín íhugar alvarlega framboð

Oddný G. Harðardóttir fyrrverandi fjármálaráðherra vill verða næsti varaformaður Samfylkingarinnar. Núverandi fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, er einnig alvarlega að íhuga framboð til sama embættis.

Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn fyrstu þrjá daga í febrúar og þar verður meðal annars kosið um varaformanna flokksins. Dagur B. Eggertsson núverandi varaformaður lýsti því yfir á dögunum að hann sækist ekki eftir endurkjöri og fjórar konur hafa helst verið nefndar til sögunnar sem kandídatar í embættið, þær Oddný Harðardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

Fram til þessa hefur þó engin lýst yfir framboði en Oddný reið á vaðið í gærkvöldi þegar hún tilkynnti um framboð á stefnuþingi flokksins í Suðurkjördæmi.

Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu í dag að hún væri alvarlega að íhuga framboð en að endanleg ákvörðun lægi ekki fyrir.

Ólína Þorvarðardóttir sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um framboð og Sigríður Ingibjörg sagði að þrátt fyrir að margir hafi lagt hart að henni að bjóða sig fram, væri hún ekkert sérstaklega á þeim buxunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×