Innlent

Mikið um lús í ár

Lúsin kemur alltaf af og til upp í skólum en skólahjúkrunarfræðingar á höfuðborgarsvæðinu hafa frá því í haust skráð 102 lúsartilfelli.

„Á móti 70 tilfellum allt skólaárið í fyrra og 63 árið þar áður þannig að þetta er eiginlega helmingsaukning," segir Ása Atladóttir, sýkingavarnahjúkrunarfræðingur.

Lúsatilfellin eru þó ekki öll skráð og þess vegna er nauðsynlegt að skoða sölutölur lúsalyfja, en salan tók kipp árið 2012 og jókst um þriðjung frá fyrra ári.

„Ef maður leggur saman alla skammtana sem hafa verið keyptir af þessum þremur gerðum sem eru í boði og að allir hafi keypt tvisvar, því við mælum með því að fólk setji einu sinni og kembi samhliða og endurtaki svo meðferðina eftir viku, og þá kemur í ljós að þetta eru rúmlega 3000 manns sem hafa verið með lús í fyrra, sem hafa keypt sér lúsaefni," segir Ása.

Skólahjúkrunarfræðingar sendu nýverið um 11 þúsund tilkynningar til foreldra og forráðamanna skólabarna þar sem þeir eru beðnir um að kemba hár allra í fjölskyldunni.

„Það hafa hringt hingað foreldrar mjög svekktir, búnir að gera allt sem í þeirra valdi stendur út af lúsasmiti hjá sínum börnum, og eyða peningum í að kaupa þessi efni, og eyða tíma í kembingu og allt orðið hreint og fínt. Svo fara börnin í skólann og smitast jafnharðan aftur. Þetta er eitthvað sem enginn vill lenda í, en eina leiðin er að koma í veg fyrir það er að allir séu samtaka og enginn slái skollaeyrum við svona tilkynningu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×