Innlent

Kjarasamningar framlengdir til loka nóvember

Tekin var ákvörðun um það á fundi forystumanna Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem hófst klukkan hálftvö í dag að framlengja kjarasamninga til 30. nóvember næstkomandi. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að tíminn fram að hausti yrði nýttur til að undirbúa næstu kjarasamninga.

„Við þurfum virkilega á því að halda íslenskt þjóðfélag að það sé stöðugleiki, menn séu ekki að fara út í einhverjar kjarabætur sem eingöngu kynda undir verðbólgu," sagði Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, á fundinum í dag.

„Við þurfum að breyta hugsunarhættinum, við þurfum að breyta vinnubrögðum og við þurfum umfram allt að fá komandi ríkisstjórn til að hugsa um atvinnulífið og hvað því er fyrir bestu vegna þess að velferðarríkið og velferðarkerfið stenst ekki nema að atvinnulífið blómstri. Ég held að það hafi skort mjög mikið á það hjá núverandi stjórnvöldum en ég ætla ekki að fara að hnýta í þau á þessu augnabliki heldur einungis vonast ég til þess að næsta ríkisstjórn beri gæfu til þess að hugsa meira um það sem skiptir máli í sambandi við atvinnulífið," sagði Vilmundur.

Hann endaði á því að óska viðstöddum til hamingju með það að vinnufriður haldist út árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×