Innlent

16 ára stöðvaður fyrir framan lögreglustöðina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan í Kópavogi þurfti ekki að fara langt til þess að ná í skottið á sextán ára pilti sem hafði tekið bifreið foreldra sinna traustataki um helgina.

„Svo vel vildi til, bæði hans vegna sem og annarra vegfarenda, að kappinn ók framhjá lögreglustöðinni í Kópavogi en þar var för hans stöðvuð snarlega," segir í dagbók lögreglunnar.

Í Hafnarfirði hafði lögreglan afskipti af tveimur sautján ára drengjum á rúntinum. Annar þeirra hafði fengið fjölskyldubílinn að láni og með bílpróf. Hann hafði hins vegar leyft vini sínum að prufukeyra bifreiðina en sá hafði ekki tilskilin réttindi.

Í dagbók lögreglunnar segir að drengirnir hafi reynt að ljúga sig út úr vandræðum sínum en það hafi verið dæmt til að mistakast. Lögreglan reiknar með því að eftirmáli verði af málinu í það minnsta á heimili drengjanna. Foreldrar hafi verið afar þakklátir lögreglu fyrir afskipti hennar af málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×