Innlent

Grunaðir um stórfellt landhelgisbrot

GS skrifar
Löndunin hófst í Eskifirði.
Löndunin hófst í Eskifirði.
Löndun hófst í hádeginu á Eskifirði úr norsku loðnuskipi, sem varðskip Gæslunnar færði þar til hafnar í nótt vegna gruns um alvarlegt landhelgisbrot. Skipstjórinn getur átt yfir höfði sér þunga refsingu.

Skipverjar voru að klára veiðiferðina og gaf skipstjórinn Gæslunni upp aflatölur, eins og vera ber, áður en hann ætlaði að halda til Noregs. Skipverjar á varðskipi þar í grennd ákváðu hinsvegar að fara um borð og sannreyna upplýsingar skipstjórans, sem gaf upp 600 tonna afla, en eftir því sem Fréttastofa kemst næst er aflinn nær 800 tonnum, þannig að það virðist sem skipstjórinn hafi ætlað að spara kvótann sinn með léttu svindli.

Þegar það lá fyrir var skipstjóranum skipað að halda strax til næstu hafnar og fylgdi varðskipið loðnuskipinu til Eskifjarðar, þangað sem skipin komu á áttunda tímanum i morgun. Varðskipsmenn lögðu þá þegar fram kæruskýrslu og lögreglurannsókn hófst, sem stendur enn, og er þess nú beðið hversu mikill afli kemur upp úr skipinu. Á annan tug norskra loðnuskipa hafa siglt héðan með afla síðustu daga, en varðskipsmenn hafa ekki fyrr en nú komist um borð í þau til að sannreyna aflatölur, vegna óhagstæðs veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×