Innlent

50 vitni kölluð fyrir dóminn í al-Thani málinu

MH og JHH skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson eru tveir af sakborningum í málinu.
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson eru tveir af sakborningum í málinu. Mynd/ Vilhelm.
Sérstakur saksóknari gerir ráð fyrir að 50 vitni koma fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þegar aðalmeðferð í al-Thani málinu fer fram. Aðalmeðferðin hefst þann 11. febrúar næstkomandi. Reynt verður að kalla Sheik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani til vitnis. Þetta kom fram við fyrirtöku málsins í héraðsdómi í dag. Þar voru lögð fram gögn í málinu. Einnig gerði héraðsdómari grein fyrir því að Ingimundur Einarsson og Magnús Benediktsson yrðu meðdómarar.

Al-Thani málið snýst um markaðsmisnotkun og umboðssvik sem helstu stjórnendur Kaupþings eru grunaðir um að hafa staðið að. Þeir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, einn aðaleigandi bankans, eru grunaðir um að hafa staðið að sýndarviðskiptum með því að hafa selt 5% í Kaupþingi til al-Thanis. Aldrei hafi komið nein greiðsla frá al-Thani vegna kaupanna heldur hafi bréfin verið seld með láni frá bankanum sjálfum. Með þessu hafi átti að halda hlutabréfaverði bankans uppi og villandi markaðsupplýsingar verið gefnar í fjölmiðlum.

Al-Thani málið verður stærsta dómsmálið, sem höfðað er í framhaldi af bankahruninu, hvað varðar fjölda vitna. Til samanburðar komu 43 vitni fyrir dóminn í landsdómsmálinu. Aðalmeðferð í því tók um tvær vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×