Innlent

Sleppur við gæsluvarðhald þrátt fyrir ásökun um barnaníð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði því að maður, sem sakaði tvær sjö ára stelpur um að hnupla sælgæti úr verslun og nam þær brott í bíl sínum skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Maðurinn hefur játað að hafa ekið með þær á afvikinn stað þar sem hann strauk þeim utanklæða á læri og kvið og kyssti aðra þeirra á kinnina. Í dómnum segir að maðurinn virðist hafa hætt þegar stúlkurnar sýndu merki um hræðslu og ók þeim aftur á sinn stað.

Í dómi Hæstaréttar segir að háttsemi mannsins feli í sér alvarlegt athæfi í garð stúlknanna tveggja. Það eitt og sér nægi þó ekki til þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu almannahagsmuna, heldur verður meira að koma til. Mikilvægt skilyrði fyrir gæsluvarðhaldsúrskurði, að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sé ekki til staðar í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×