Innlent

Makríllinn á ekki að fá að éta frítt í lögsögu Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Makríldeila Íslendinga er komin í alþjóðlegt sviðsljós sem helsta dæmi um árekstra sem verða á milli ríkja vegna hlýnunar hafsins. Ræða Steingríms J. Sigfússonar á Norðurslóðaráðstefnu í Noregi vakti mikla athygli og sjálfur telur hann málstað Íslands styrkjast þegar deilan er sett í þetta samhengi.

Ráðstefnan stendur yfir alla þessa viku í Tromsö og sækja hana um eitt þúsund manns, þeirra á meðal utanríkisráðherrar Noregs og Svíþjóðar, Espen Barth Eide og Carl Bildt, og sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, Maria Damanaki. Í ræðum hafa áhrifamenn fagnað því að engin alvarleg deilumál séu milli þjóða um Norðurslóðir. Eitt dæmi hefur mönnum þó orðið tíðrætt um en það er makríldeilan og margir virðast telja Íslendinga vera helstu friðarspillana.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra, fulltrúi íslenskra stjórnvalda, fékk því mikla athygli meðal þeirra eitthundrað fréttamanna sem sækja ráðstefnuna og þeir sátu um að taka við hann viðtöl.

Í ræðu sinni tengdi hann makríldeiluna við hlýnun á Norðurslóðum. Steingrímur sýndi með myndum hvernig hlýnun hafsins hefði breytt göngmynstri fisktegunda og vakti kátínu þegar hann sagði að makríllinn ætti ekki að fá að éta frítt í lögsögu Íslands. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan, lýsti Steingrímur þeirri tilfinningu sinni að staða Íslands hefði verið að styrkjast á undanförnum mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×