Innlent

Deiliskipulag á Brynjureit samþykkt

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Jón Gnarr borgarstjóri á borgarráðsfundi.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Jón Gnarr borgarstjóri á borgarráðsfundi.
Borgarráð samþykkti breytt deiliskipulag fyrir Brynjureit við Laugaveg á fundi sínum í gær, 24. janúar 2013. Samkvæmt nýju deiliskipulagi breytist ásýnd Laugavegar lítið en talsverðar breytingar verða á byggðinni við Hverfisgötu sem samræmd verður byggingum í nágrenninu. Á reitnum mun rísa blönduð og notaleg byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis með göngugötum sem tengja Laugaveg, Hverfisgötu og Klapparstíg.

Brynjureitur markast af Laugavegi, Vatnsstíg, Hverfisgötu og Klapparstíg, en deiliskipulagi verður breytt á hluta reitsins sem tekur yfir Hverfisgötu 40-44 , Klapparstíg 31 og Laugaveg 23, 27A og 27B. Allur reiturinn sem deiliskipulagið nær til er 7.436 fermetrar að stærð en breytingin á reitnum nær til 2.670 fermetra.

Deiliskipulagstillagan á reitnum var auglýst frá 21. nóvember 2012 til og með 4. janúar 2013 og bárust tvö athugasemdabréf. Tillagan var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 16. janúar 2013.

Á Brynjureit verður gert ráð fyrir nýbyggingum að Hverfisgötu 40, 42 og 44 og einnig að byggt verði á baklóðum. Yfirbragð reitsins við Hverfisgötu verður nokkuð samfellt og götumyndin styrkist mikið. Nýbyggingar við götuna eiga að taka mið af nærliggjandi húsum.

Ásýnd Laugavegs breytist ekki, en húsið sem stendur við Laugaveg 23 verður gert upp en húsið var friðað með nýjum lögum um menningarminjar 1. janúar 2013. Í fyrri deiliskipulagstillögu var áformað að flytja það eða rífa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×