Innlent

"Framar mínum björtustu vonum"

Ragnheiður Elín
Ragnheiður Elín
„Ég var með 51% í fyrsta sæti síðast þannig að þetta er heljarinnar bæting svo maður noti íþróttamálið. Ég get ekki verið annað en yfir mig glöð og þakklát," sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir sem sigraði með yfirburðum í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í dag.

„Þetta er framar björtustu vonum," sagði Ragnheiður Elín. Að lokinni þriðju talningu hafði Ragnheiður hlotið tæplega 70% atkvæða í fyrsta sætið. Hún þakkar fólkinu í Suðurkjördæmi sem hafi trú á sér.

„Við höfum staðið í mikilli varnarbaráttu allt þetta kjörtímabil í þinginu. Það er að skila sér. Ég held að þetta sé líka ákall um breytingu," segir Ragnheiður Elín.

Ragnheiður hefur setið á þingi frá árinu 2009. Hún segist hafa talað fyrir því í kosningabaráttunni að forgangsraðað yrði upp á nýtt.

„Að við færum að snúa okkur að því sem skiptir máli. Fjármál heimilanna og atvinnumálin en leggja hitt til hliðar sem skapar bara ágreining og tekur tíma frá því sem skiptir máli," segir Ragnheiður.

Athygli vakti að Árni Johnsen var ekki á meðal fimm efstu á listanum þegar um 75% atkvæða höfðu verið talin. Árni, sem setið hefur á þingi með hléum frá árinu 1983, sóttist einnig eftir fyrsta sæti lista Sjálfstæðismanna í kjördæminu.

„Ég verð að segja að það kom mér á óvart. Árni er mjög seigur og hefur verið öflugur þingmaður um áratuga skeið. Það er kannski ákveðin krafa um endurnýjun," segir Ragnheiður sem líst vel á listann.

„Ég held að þetta geti verið sterkur og sigurstranglegur listi. Ég hlakka til að demba okkur í kosningabaráttuna fyrir kosningarnar í apríl núna þegar þetta er frá."

Þegar 3079 atkvæði höfðu verið talin var staðan þessi:

1. Ragnheiður Elín Árnadóttir, 2086 atkvæði í 1. sæti

2. Unnur Brá Konráðsdóttir, 1210 atkvæði í 1.-2. sæti

3. Ásmundur Friðriksson, 1253 atkvæði í 1.-3. sæti

4. Vilhjálmur Árnason, 1120 atkvæði í 1.-4. sæti

5. Geir Jón Þórisson, 1418 atkvæði í 1.-5. sæti

Eftir á að telja um eitt þúsund atkvæði.


Tengdar fréttir

Ragnheiður Elín enn í fyrsta sæti

Ragnheiður Elín Árnadóttir er í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Eftir á að telja um fjórðung atkvæða.

Árni Johnsen ekki á meðal fimm efstu

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er ekki á meðal fimm efstu á lista þegar um helmingur atkvæða í prófkjöri flokksins í kjördæminu hefur verið talinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×