Innlent

Facebook segir mistök að hafa ekki fjarlægt mynd af Þórlaugu

Myndin sem um ræðir sem Facebook taldi ekki brjóta í bága við reglur samskiptamiðilsins í fyrstu. Við hlið hennar er Jan Frederiksson, talsmaður Facebook á Norðurlöndum.
Myndin sem um ræðir sem Facebook taldi ekki brjóta í bága við reglur samskiptamiðilsins í fyrstu. Við hlið hennar er Jan Frederiksson, talsmaður Facebook á Norðurlöndum.
Talsmaður Facebook á Norðurlöndum, Jan Frederiksson, viðurkenndi í danska ríkissjónvarpinu síðasta sunnudag að það hefðu verið mistök að fjarlægja ekki mynd af Þórlaugu Ágústsdóttur, sem óprúttinn aðili hafði breytt með þeim hætti að hún virtist vera með áverka eftir ofbeldi.

Á myndinni stóð svo að konur væru eins og gras, það þyrfti að slá þær reglulega. Myndin birtist á síðunni karlar eru betri en konur, en ekki er vitað hver hélt síðunni úti á Facebook.

Þórlaug gagnrýndi framferði Facebook harðlega fyrir helgi og sagði samskiptavefinn sýna aðgerðarleysi gagnvart ofbeldi gegn konum. Þannig kvartaði hún til Facebook vegna myndarinnar, en slíkar kvartanir eru afgreiddar í höfuðstöðvum Facebook í Írlandi. Þar fengust þau svör að myndin bryti ekki í bága við reglur Facebook.

Jan segir svo í viðtali við danska ríkissjónvarpið, sem fjallaði ítarlega um málið um helgina, að líklega hefðu verið um misskilning að ræða vegna tungumálsins, en orðið slá hefur auðvitað ólíka merkingu í íslenskri tungu og ræðst af samhenginu.

Sjálf býr Þórlaug í Danmörku þar sem hún stundar nám. Síðan aftur á móti hefur verið tekin út af Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×