Innlent

Helmingi fleiri faglærðir leikskólakennarar á Akureyri

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Félög leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum segja öll börn eiga rétt á dvöl í góðum leikskóla þar sem sérfræðingar í leikskólafræðum skipuleggja og leiða starfið. Mynd úr safni.
Félög leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum segja öll börn eiga rétt á dvöl í góðum leikskóla þar sem sérfræðingar í leikskólafræðum skipuleggja og leiða starfið. Mynd úr safni. Fréttablaðið/Valli
Í Reykjavík eru eingöngu um þrjátíu prósent starfsmanna leikskólakennarar. Í ályktun frá Félagi leikskólakennara og Félagi stjórnenda í leikskólum segir að öll börn eigi rétt á dvöl í góðum leikskóla og að meginforsenda þess að leikskóli sé góður sé að þar starfi sérfræðingar í leikskólafræðum sem skipuleggja og leiða starfið. En ekki sitji öll börn við sama borð vegna skorts á leikskólakennurum.

Á Akureyri eru leikskólakennarar um 66 prósent starfsmanna en þrátt fyrir það er rekstrarkostnaðurinn lægri en í Reykjavík. 

Gunnar Gíslason fræðslustjóri Akureyrarbæjar
Gunnar Gíslason, fræðslustjóri Akureyrarbæjar, segir leikskólarýmum hafa fjölgað gífurlega síðustu tólf ár og þar af leiðandi stöðugildum. Samt sem áður hafi fagmenntuðum leikskólakennurum fjölgað í leikskólum bæjarins. 

„Menntunarstigið jókst mikið hjá okkur eftir að byrjað var að bjóða upp á leikskólamenntun í Háskólanum á Akureyri. Hvatningin var mikil og margir almennir starfsmenn fóru í nám. Það hefur aukið stöðugleika og starfsumhverfið hefur batnað þannig að brottfall verður minna. Þannig að það er hægt að segja að lítil starfsmannavelta á leikskólum skýri lægri rekstrarkostnað þrátt fyrir hærri laun vegna faglærðra.“ 

Ragnar Þorsteinssonsviðstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar
Samkvæmt leikskólalögum eiga tveir þriðju starfsmanna á deildum að vera leikskólakennarar. Í Reykjavík eru leikskólakennarar einn þriðji hluti starfsmanna.

„Vegna lengingar leikskólakennaranámsins hefur verið veitt undanþága frá ákvæðinu,“ segir Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. „Við viljum þó gjarnan fjölga faglærðum og nýlega var ákveðið á menntavísindasviði Háskóla Íslands að búið verði til diplómanám næsta haust til að auðvelda starfsfólki að fara í nám. En til viðbótar við faglærða leikskólakennara eru um 20-30 prósent starfsmanna með aðra háskólamenntun.“ 

Ragnar segir töluverða starfsmannaveltu vera á leikskólum Reykjavíkur. Árið 2012 var brottfall leikskólakennara 12,1 prósent. „Við reynum að sporna við því með því að hvetja til náms og byggja leikskólana upp eins faglega og við getum. En talað hefur verið um lág laun í samhengi við brottfall faglærðra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×