Innlent

Færri flytja til útlanda

JHH skrifar
Alls fluttust 319 fleiri frá landinu en til þess á síðasta ári. Það dró úr brottflutningi á árinu miðað við árið áður, þegar 1.404 fluttust úr landi umfram aðflutta. Alls fluttust 6.276 frá landinu, samanborið við 6.982 í hitteðfyrra Alls fluttust 5.957 manns til Íslands í fyrra, sem er nokkur aukning miðað við árið 2011 þegar 5.578 manns fluttu til landsins. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Íslenskir ríkisborgarar voru mun fleiri en erlendir í hópi brottfluttra, eða 4.066 á móti 2.210. Íslenskir ríkisborgarar voru einnig fleiri meðal aðfluttra en erlendir, 3.130 á móti 2.827. Alls fluttust því 936 íslenskir ríkisborgarar úr landi umfram aðflutta, á meðan aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 617 fleiri en brottfluttir.

Langflestir flytja til Norðurlandanna

Árið 2012 fluttust 3.015 íslenskir ríkisborgarar til Noregs, Danmerkur eða Svíþjóðar af 4.066 alls. Flestir fluttust til Noregs, eða 1.395. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu einnig frá þessum löndum eða 2.321 af 3.130 alls, flestir þó frá Danmörku, eða 1.132.

Á sama tíma fluttust flestir erlendir ríkisborgarar til Póllands, eða 740 af 2.181 alls. Þaðan komu líka 886 erlendir ríkisborgarar. Þetta flutningsmynstur hefur haldist óbreytt frá því 2009, nema hvað Noregur hefur orðið hlutfallslega vinsælli meðal íslenskra ríkisborgara og dregið hefur úr vægi Póllands sem helsta áfangastaðar erlendra ríkisborgara.

Unga fólkið flyst búferlum

Í fyrra voru flestir brottfluttra á aldrinum 20-24 ára, flestir þó 24 ára af einstaka árgöngum. Fjölmennasti hópur aðfluttra var á aldrinum 25-29 ára og tíðasti aldur þeirra var 26 ára. Þegar tekið er tillit til fjölda brottfluttra umfram aðflutta var mest fækkun vegna fólksflutninga frá landinu í aldurshópnum 30-34 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×