Innlent

Lagt til að stofna hamfarasjóð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði til á ríkisstjórnarfundi í morgun að stofnaður verði sérstakur hamfarasjóður.

Hlutverk hamfarasjóðsins lyti að forvörnum gegn náttúruvá annars vegar og hins vegar greiðslu bóta vegna tjóns sem fellur til við náttúruhamfarir og ekki fæst bætt úr almennum vátryggingum.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundinum að skipa starfshóp með fulltrúum forsætisráðuneytis auk fjögurra annarra ráðuneyta sem á að fjalla um hlutverk nýs hamfarasjóðs. Til hliðsjónar á starfshópurinn að hafa verkefni Ofanflóðasjóðs og fyrirliggjandi áætlanir um framkvæmdir við ofanflóðavarnir í sveitarfélögum sem í hlut eiga og eðlilega verkaskiptingu.

Stofnun hamfarasjóðs er tillaga nefndar sem forsætisráðherra skipaði í nóvember árið 2010. Nefndinni var ætlað að gera tillögur að bótum samkvæmt föstum verklagsreglum til þjónþola í náttúruhamförum. Koma átti í veg fyrir að ríkissjóður þyrfti að standa frammi fyrir óvæntum útgjöldum í kjölfar náttúruhamfara.

Minnisblað forsætisráðuneytisins frá fundinum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×