Innlent

Víkingur brýndi öxi sína í byggingavöruverslun

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Maðurinn með öxina í byggingavöruversluninni var á leið heim af víkingahátíð. Myndin tengist frétt ekki beint.
Maðurinn með öxina í byggingavöruversluninni var á leið heim af víkingahátíð. Myndin tengist frétt ekki beint.
Sérkennilegt mál kom upp á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dögunum. Starfsfólk byggingarvöruverslunar hafði samband og tilkynnti ófrýnilegan mann sem hafði spurt hvort hægt væri að fá brýni til kaups. Svo gerði hann sér lítið fyrir, tók kastöxi úr belti sínu og tók við að brýna hana.

Starfsólki varð skiljanlega brugðið, enda ekki vitað hvað maðurinn hyggðist gera við öxina að býningu lokinni. Lögregla kom skjótt á vettvang, enda betra að koma fyrr en síðar þegar slík mál koma upp. Þegar lögregluþjónarnir komu inn í byggingavörubúðina reyndist maðurinn hins vegar pollrólegur en hissa á þessum afskiptum. Þá kom á daginn að kappinn hafði verið á leið heim af víkingahátíð og hafi dottið í hug að koma við og kanna hvort til væri brýni fyrir öxina. Sú væri nefnilega mikið notuð við víkingasýningar og orðin eilítið bitlaus.

Lögreglan bað manninn um að hafa exina ekki uppi við, enda kynni fólk að misskilja slíkt og tók víkingurinn vel í málið.

Frá þessu greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×