Innlent

Telja tap Íbúðalánasjóðs stórlega ofmetið

Heimir Már Pétursson skrifar
Í tilkynningunni segir að frá 1999 hafi Íbúðalánasjóður tapað 64 milljörðum.
Í tilkynningunni segir að frá 1999 hafi Íbúðalánasjóður tapað 64 milljörðum.
Tap Íbúðalánasjóðs er hvergi nálægt þeim 270 milljörðum sem birst hafa í fréttum segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði sem var að berast.

Frá 1999 hafi Íbúðalánasjóður tapað 41 milljarði og lagt aðra 23 milljarða í varasjóð til að mæta útlánatapi framtíðar eða samtals 64 milljarðar. Af þeirri upphæð séu 92% til komin vegna bankahrunsins. Hvort sem talað sé á forsendum reikningsskila eða samkvæmt almennri málvenju sé ekki með nokkru móti hægt að tala um 270 milljarða tap, enda geri skýrsluhöfundar það alls ekki.

Úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis megi lesa áfellisdóm yfir stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum allt frá stofnun Íbúðalánasjóðs árið 1999. Að mati skýrsluhöfunda hafi aðkoma yfirvalda og rekstur sjóðsins einkennst af skorti á fagmennsku. Íbúðalánasjóður telur skýrsluna geta komið að góðum notum við stefnumótun í húsnæðismálum. Frá því núverandi stjórn Íbúðalánasjóðs tók við árið 2011 hafi allir ferlar útlána tekið stakkaskiptum og áhættustýring og innra eftirlit sjóðsins verið stórbætt. Fyrirspurnir rannsóknarnefndarinnar hafi hins vegar ekki náð til áranna 2011-2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×