Innlent

Hefjast fyrst handa í heilbrigðisstofnunum

Þorgils Jónsson skrifar
Ríkisstjórnin boðaði í gær átak til að bregðast við bakslagi í baráttunni gegn kynbundnum launamun. Sjónum verður fyrst beint að heilbrigðiskerfinu.
Fréttablaðið/Valli
Ríkisstjórnin boðaði í gær átak til að bregðast við bakslagi í baráttunni gegn kynbundnum launamun. Sjónum verður fyrst beint að heilbrigðiskerfinu. Fréttablaðið/Valli
Ríkisstjórnin boðaði í gær átak til að vinna gegn launamun kynjanna með aðgerðum til að „rétta hlut starfsstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta".

Í tilkynningu frá stjórnvöldum segir að afturkippur hafi orðið í þróun að launajafnrétti kynjanna meðal opinberra starfsmanna.

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar munu aðgerðirnar sem nú verður ráðist í beinast að stofnunum heilbrigðiskerfisins. Þar er enda mestan launamun milli kynjanna að finna, og það eru jafnan fjölmennustu starfshóparnir meðal ríkisstarfsmanna.

Einkum verður horft til hópa þar sem hlutfall karla er þriðjungur eða lægra. Ef nauðsynlegt þykir að leiðrétta laun þar sem kjarasamningar eru enn í gildi verða aðgerðirnar útfærðar sérstaklega hjá hverri stofnun fyrir sig, með tímabundnum aðgerðum eða með stofnanasamningi, en slík leið var til dæmis farin innan Stjórnarráðsins síðasta haust.

Velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið falið að útfæra nánar tillögur að framangreindum aðgerðum. Ráðherrarnir skulu jafnframt gera tillögu um fjármögnun rúmist þær ekki innan fjárhagsramma viðkomandi stofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×