Innlent

Í haldi fyrir árásina á Guðjón

Stígur Helgason skrifar
Guðjón setti sterkan svip á mannlífið í borginni og var þekktur fyrir að aka bíl sínum niður Laugaveginn á góðviðrisdögum og leyfa harmóníkutónlist að óma út um opna bílgluggana.Fréttablaðið/stefán
Guðjón setti sterkan svip á mannlífið í borginni og var þekktur fyrir að aka bíl sínum niður Laugaveginn á góðviðrisdögum og leyfa harmóníkutónlist að óma út um opna bílgluggana.Fréttablaðið/stefán
Lögregla handtók í gærmorgun mann á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa ráðist á Guðjón Guðjónsson um þarsíðustu helgi, handleggsbrotið hann og rænt af honum bílnum.

Guðjón, sem var 76 ára gamall, fannst látinn á heimili sínu í Kópavogi á miðvikudaginn fyrir viku, fjórum dögum eftir árásina. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að hann hafi látist úr hjartaáfalli og málið er ekki rannsakað sem manndráp.

Það var á Hverfisgötu í miðbæ Reykjavíkur sem maður stöðvaði Guðjón á laugardagskvöld, settist upp í bíl til hans og neyddi hann til að aka suður í Kópavog. Þegar þangað var komið réðst maðurinn á hann, henti honum út úr bílnum og ók á brott. Þar fundu tvær konur Guðjón og hringdu á lögreglu.

Nú eftir helgi féll grunur á mann, sem var síðan handtekinn í gærmorgun og færður í fangaklefa. Til stóð að yfirheyra hann í gærkvöldi, að sögn Heimis Ríkharðssonar hjá lögreglunni. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu og er talinn hafa verið einn að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×