Innlent

Fimmtungur Íslendinga hefur aðgang að skotvopnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fólk hefur ekki ekki miklar áhyggjur af skotvopnaeign landans.
Fólk hefur ekki ekki miklar áhyggjur af skotvopnaeign landans.
Um 21% Íslendinga hafa aðgang að skotvopnum. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem MMR gerði.

Aðgengi að skotvopnum er nokkuð breytilegt á milli hópa. Þannig hafa hlutfallslega fleiri karlar aðgang að skotvopnum en konur, aðgengi að skotvopnum eykst með auknum aldri, hlutfallslega fleiri þeirra sem búa úti á landi hafa aðgang að skotvopnum en þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og aðgengi að skotvopnum eykst með auknum heimilistekjum.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 28,9% karla hafa aðgang að skotvopnum borið saman við 12,7% kvenna. Hlutfall þeirra sem bjuggu úti á landi og sögðust hafa aðgang að skotvopnum var 25,7%, borið saman við 17,6% þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutfall þeirra sem sögðust hafa aðgang að skotvopnum hækkaði með auknum aldri. Af þeim sem tóku afstöðu sagðist 23,8% elsta aldurshópsins (50-67 ára) hafa aðgang að skotvopnum, borið saman við 21,4% í aldurshópnum 30-49 ára og 16,6% í yngsta aldurshópnum (18-29 ára).

Af þeim sem tóku afstöðu og voru í hæsta launaflokk (800 þúsund eða hærra í heildartekjur heimilis á mánuði) sögðust 28,4% hafa aðgang að skotvopnum borið saman við 14,2% þeirra sem voru í lægsta launaflokk (heildartekjur heimilis undir 250 þúsund á mánuði).

MMR kannaði líka hlutfall þeirra sem hafa áhyggjur af skotvopnaeign á Íslandi og niðurstaðan er sú að tiltölulega fáir hafa áhyggjur af slíku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×